
Starfsmannafélag Suðurnesja varð 60 ára þann 20. mars 2017.
STFS varð til við sameiningu Starfsmannafélags Reykjanesbæjar, áður starfsmannafélags Keflavíkurbæjar, og starfsmannafélags Suðurnesjabyggða 4. október árið 2000.
Innan starfsmannafélags Keflavíkur voru starfsmenn Keflavíkurbæjar, Sérleyfisbifreiða Keflavíkur SBK og Sjúkrahússins eða Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja. Starfsmannafélag Suðurnesjabyggða vann að málum starfsmanna annarra sveitarfélaga á Suðurnesjum og starfsmanna innan Hitaveitu Suðurnesja.
Virkir félagar í dag eru rúmlega 700 talsins og er félagið er sjöunda stærsta aðildafélag BSRB.
Styrkja starf eldri borgara
Í tilefni af 60 ára afmæli félagsins ákvað Starfsmannafélag Suðurnesja að styðja við starf eldri borgara. Veitti félagið styrki til Félags eldri borgara á Suðurnesjum og til félagsstarfs á hjúkrunarheimilunum Nesvöllum, Hlévangi og Víðihlíð.
Starfsmannafélögin sameinuð
Starfsmannafélag Reykjanesbæjar og Starfsmannafélag Suðurnesjabyggða voru sameinuð á framhaldsaðalfundum félaganna þann 4. október árið 2000.
Áður höfðu verið gerðar nokkrar tilraunir til sameiningar sem ekki höfðu tekist. Formaður Starfsmannafélags Suðurnesjabyggða Óskar Guðjónsson sem var starfsmaður Sandgerðisbæjar lét þá af störfum og var Ragnar Örn Pétursson formaður Starfsmannafélags Reykjanesbæjar því einn í kjöri til formanns í hinu nýja félagi sem hlaut nafnið Starfsmannafélag Suðurnesja. Félagar voru þá rúmlega 500 talsins.
Félögin festu sameiginlega kaup á skrifstofuhúsnæði að Hafnargötu 15 í Keflavík þar sem skrifstofa STFS var staðsett en stjórn hins nýja félags skipuðu Ragnar Örn Pétursson formaður, Sæmundur Pétursson varaformaður, Valdís Sigurbjörnsdóttir gjaldkeri, Þorgerður Guðmundsdóttir ritari og Ásdís Óskarsdóttir meðstjórnandi.

20. mars 1957 – Stofnfundur Starfsmannafélags Keflavíkurbæjar
Starfsmannafélag Keflavíkurbæjar STKB stofnað. Á fundinn mættu 17 starfsmenn, sem gegna föstu starfi í þjónustu Keflavíkurbæjar, stofnana hans og fyrirtækja. Tilgangur félagsins var að vinna að bættum launa- og ráðningarkjörum starfsmanna bæjarins og stofnana hans og jafnframt því að auka samhug og samstarf starfsmanna í öllum greinum.
16. maí 1957 – Aðild að BSRB
Sótt um aðild að Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja BSRB sem var auðsótt.
24. júní 1958 – Eftirlaunasjóður Keflavíkurbæjar
Reglugerð fyrir Eftirlaunasjóð Keflavíkurbæjar samþykkt. Hlutverk hans var að greiða starfsmönnum Keflavíkurbæjar eftirlaun þegar þeir hætta störfum fyrir aldurs sakir. Einnig greiðir hann bætur til eftirlifandi maka og barna þeirra starfsmanna er látast á meðan þeir starfa hjá bænum.
10. febrúar 1965 – Styrktarsjóður STKB
Styrktarsjóður STKB stofnaður. Hlutverk hans var að styrkja þá félagsmenn sem urðu fyrir fjárhagsörðugleikum vegna langvarandi veiikinda svo og að taka þátt í kostnaði vegna andláts þeirra, slysa eða dauðsfalla innan fjölskylna þeirra eða öðru fjárhagslegu tjóni af óviðráðanlegum orsökum. Seinna var hann sameinaður félagssjóði.

27. ágúst 1969 – Orlofshús í Munaðarnesi
Samþykkt að STBK tæki þátt í uppbyggingu orlofshúsa í Munaðarnesi með BSRB og kaup fest á einu húsi fyrir félagsmenn. Húsið var afhent vorið 1971.
Maí 1974
Gengið frá kaupum á öðru orlofshúsi í landi Stóru-Grafar í Borgarfirði og var húsið afhent um vorið 1975. Bæði húsin voru vinsæl hjá félagsmönnum.
Október 1976 – Verkfallsréttur opinberra starfsmanna
Opinberir starfsmenn fengu verkfallsrétt.
19. júní 1980 – Starfsmannafélag Suðurnesjabyggða
Starfsmannafélag Suðurnesjabyggða stofnað.
1994 – Starfsmannafélag Reykjanesbæjar
Við sameiningu sveitarfélaganna Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna varð til sveitarfélagið Reykjanesbær og í framhaldi var nafni Starfsmannafélags Keflavíkurbæjar breytt því til samræmis.

4. október 2000 – Stofnfundur Starfsmannafélags Suðurnesja
Stofnfundur Starfsmannafélags Suðurnesja haldinn 4. október 2000. Starfsmannafélag Suðurnesja varð til eftir sameiningu Starfsmannafélags Suðurnesjabyggða og Starfsmannafélags Reykjanesbæjar.
Formenn Starfsmannafélags Keflavíkur:
- Björgvin Árnason 1957-1975
- Vilhjálmur Grímsson 1975-1977
- Sigurður Júlíus Sigurðsson 1977-1978
- Hjördís Árnadóttir 1978-1979
- Elsa Lilja Eyjólfsdóttir 1979-1986
- Hólmar Magnússon 1986-1999
- Ragnar Örn Pétursson 1999
Formenn Starfsmannafélags Suðurnesjabyggða:
Formenn
- Alda Jónsdóttir 1980-1984
- Jósef Borgarsson 1984-1991
- Óskar Guðjónsson 1991-2000
Formenn Starfsmannafélags Suðurnesja
- Ragnar Örn Pétursson 2000–2013
- Stefán B. Ólafsson 2013