Lög STFS
1.gr. Félagið heitir Starfsmannafélag Suðurnesja, skammstafað STFS. Heimili þess og varnarþing er í Reykjanesbæ.
2.gr. Félagið skiptist í A-hluta og B-hluta. A-hluti Félagið er stéttarfélag starfsmanna í þjónustu sveitarfélaga á Suðurnesjum ásamt ríkisstofnunum á félagssvæðinu.
Í B-hluta eru einstaklingar sem starfa hjá stofnunum eða fyrirtækjum sem starfa í almanna þágu og eru að meirihluta í eigu bæjarfélags eða hafa verið í eigu bæjarfélags en eru nú rekin af öðrum aðilum. Um kjarasamninga B-hluta félagsins gildi lög nr. 80/1938. Félagið er aðili að BSRB.
3.gr. Tilgangur félagsins er m.a:
- a) Að fara með fyrirsvar félagsmanna við gerð kjarasamninga og aðrar ákvarðanir af hendi félagsmanna samkvæmt lögum um kjarasamninga og opinberra starfsmanna nr.84/1986.
- b) Að gæta hagsmuna félaga sinna launþega, félagslega og faglega t.d um starfskjör, eftirlaun og önnur réttindi sem og skyldur.
- c) Að vinna að bættum samhug félagsmanna með aukinni fræðslu og menningarstarfssemi, kynningu þeirra og samhjálp eftir því sem föng eru til.
- d) Að skapa bætta félagslega stöðu og starfrækja orlofsheimili.
- e) Að styrkja með lánum eða framlögum félagsmenn sem verða fyrir verulegum fjárhagsörðuleikum, svo sem vegna veikinda, slysa eða dauðsfalla.
- f) Að stuðla að auknu samstarfi opinberra starfsmanna og aukinni samvinnu samtaka launafólks.
Félagið tekur ekki afstöðu til stefnu stjórnmálaflokka.
4.gr. Rétt til inngöngu í félagið eiga þeir starfsmenn sem uppfylla eftirtalin skilyrði:
- a) Eru ráðnir, settir eða skipaðir í starf hjá sveitarfélögum á Suðurnesjum eða stofnunum þeirra, enda sé starf þeirra talið aðalstarf.
- b) Starfsmenn sem hafa unnið hjá einhverri slíkri stofnun sem að ofan greinir í fulla þrjá mánuði samfleytt án þess að gengið hafi verið frá ráðningarskilmálum enda sé um að ræða helming venjulegs starfs í viðkomandi starfsgrein.
- c) Nýr félagi öðlast þegar full félagsréttindi við greiðslu félagsgjalds til félagsins.
Heimilt er að taka inn sem fullgilda félagsmenn þá starfsmenn á félagsvæðinu sem starfa hjá stofnunum eða fyrirtækjum sem starfa í almannaþágu.
5.gr. Allir starfsmenn sem taka laun samkvæmt kjarasamningum félagsins skulu greiða félagsgjald.
Hver sá félagi sem ekki gegnir lengur starfi á samningssviði félagsins missir öll félagsréttindi frá sama tíma. Þó er heimilt að veita félagsmönnum sem verða atvinnulausir áframhaldandi félagsaðild. Atvinnulausum félagsmönnum er skylt að greiða félagsgjald en stjórn félagsins hefur heimild til að fella niður gjöld að hluta eða öllu leyti.
Félagsmenn sem láta af störfum vegna aldurs eða örorku eiga rétt til áframhaldandi aðildar að félaginu en félagsgjöld skulu felld niður.
Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og send á skrifstofu félagsins. Engin getur þó sagt sig úr félaginu eftir að kröfugerð í vinnudeilu hefur verið send til ríkissáttasemjara og þar til samningar hafa náðst. Einnig er óheimilt að taka upp störf félagsmanna innan BSRB er lagt hafa niður vinnu vegna vinnudeilna.
Félagsmenn geta óskað eftir því að stjórn félagsins hafi afskipti af ráðningarkjörum, starfskjörum, eftirlaunum, brottvikningu og öðru sem máli skiptir í samræmi við tilgang félagsins.
6.gr. Brottvikning.
Stjórn félagsins getur vikið úr félaginu hverjum þeim sem að hennar áliti brýtur lög félagsins, samninga þess við vinnuveitendur eða vinnur gegn hagsmunum þess. Ákvörðun stjórnar er heimilt að visa til úrskúrðar trúnaðarráðs. Til samþykktar slíkrar brottvikningar þarf 2/3 atkvæða, hvort sem er á trúnaðarfundi eða stjórnarfundi.
Brottvikningu skal ekki beitt nema sakir séu miklar eða brot sem áminnt hefur verið fyrir ítrekað. Áður en til brottvikningar kemur skal félagsmanni gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum skriflega á framfæri við stjórn.
7.gr. Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum sem kosnir eru á aðalfundi bundinni kosningu. Framboðum til stjórnar skal skilað til uppstillingarnefndar minnst 30 dögum fyrir aðalfund. Uppstillinganefnd skal skipuð þremur mönnum sem kosnir eru á aðalfundi. Uppstillinganefnd skal auglýsa með áberandi hætti lok skilafrest og hvaða stjórnarmenn eru í kjöri.
Tillögum skal fylgja nafn, kennitala, starfsheiti, heimilisfang og heiti vinnustaðar þeirra sem tillaga er gerð um. Tillögum skal fylgja skriflegt samþykki þeirra sem tillaga er gerð um.
Formaður stjórnar skal kosinn sérstaklega til tveggja ára en fjórir meðstjórnendur skulu kosnir víxlkosningu til tveggja ára, þannig að tveir eru kosnir annað árið og tveir hitt. Tveir varamenn skulu kosnir til eins árs í senn.
Verði atkvæði jöfn ræður hlutkesti úrslitum. Stjórnarmenn eru löglega kosnir ef þeir fá einfaldan meirihluta greiddra atkvæða.
Stjórn félagsins kýs úr sínum hópi varaformann, gjaldkera, og ritara.
Aðalfundur kýs tvo endurskoðendur félagsreikninga og einn til vara.
8.gr. Hæfi stjórnarmanna.
Stjórnarmenn skv. 7.gr og ef við á stjórnarmenn sjóða, skulu vera fjár síns ráðandi og mega ekki á s.l. 5 árum hafa hlotið dóm fyrir refsiverðan verknað.
Stjórnarmenn missa hæfi sitt, gegni þeir starfi þar sem þeir koma fram gagnvart launafólki, sem fulltrúar eða umbjóðendur atvinnurekenda.
Stjórnarmenn sem missa hæfi sitt skv. Framansögðu á kjörtímabili sínu víkja sjálfkrafa og tafarlaust úr stjórn og taka varamenn þeirra sæti í þeirra stað þar til hæfisskilyrðum er fullnægt að nýju.
Frambjóðendur til stjórnar Starfsmannafélags Suðurnesja skulu uppfylla ofangreind skilyrði við lok framboðsfrests.
Sé ágreiningur um hæfi skal kjörstjórn úrskurða um það.
Við meðferð einstakra mála skal stjórnarmaður víkja sæti ef hann hefur hagsmuna að gæta sem kunna að fara í bága við hagsmuni félagsins.
Missi stjórnarmaður kjörgengi sitt á kjörtímabili skal hann tafarlaust víkja úr stjórn STFS.
Sama gildir um aðra kjörna fulltrúa í stjórnum og ráðum félagsins.
9.gr. Formaður kallar saman alla félags og stjórnarfundi og stýrir þeim. Í upphafi fundar hefur hann þó heimild til að stinga upp á einhverjum viðstöddum félagsmanni til að stjórna fundinum eða vera sér til aðstoðar við fundarstjórn. Formaður undirskrifar gerðir félagsins og gætir þess að allir starfsmenn geri skyldur sína. Hnn hefur eftirlit með starfsemi félagsins og eftirlit með því að fylgt sé lögum þess og reglum í öllum greinum.
Féhirðir hefur á hendi eftirlit með fjármunum félagsins, innheimtu og bókhaldi, eftir nánari fyrirmælum stjórnar. Stjórnin ber öll í sameiningu ábyrgð á sjóðum félagsins. Sjóðir félagsins skulu varðveittir og ávaxtaðir í banka, sparisjóðum eða með öðrum jafntryggum hætti.
Ritari ber ábyrgð á að gerðabækur félagsins séu haldnar og færðar í þær allar fundargerðir og lagabreytingar. Fundargerðarbækur og önnur skjöl félagsins skulu geymd á skrifstofu félagsins.
Stjórn félagsins sér um ráðningu starfsmanna til að annast rekstur félagsins ef á þarf að halda.
Félagsmönnum er skylt að gefa stjórn félagsins allar upplýsingar sem hún óskar eftir í samræmi við tilgang félagsins.
Stjórnarfundur er lögmætur ef meirihluti stjórnar mætir. Afl atkvæða ræður úrslitum mála á stjórnarfundum.
Varastjórnarmenn taka sæti í forföllum aðalmanna.
10.gr. Til aðalfundar skal boða með auglýsingu með minnst viku fyrirvara.
11.gr. Aðalfund skal halda í síðasta lagi 15. maí ár hvert. Takist ekki að ljúka aðalfundi á einum fundi skal boða til framhaldsaðalfundar.
Sérstök verkefni aðalfundar eru þessi:
- Stjórn félagsins gefur skýrslu um starfssemi félagsins á síðastliðnu ári.
- Lagðir fram til úrskurðar endurskoðaðir reikningar félagsins fyrir síðastliðið ár.
- Tekin ákvörðun um tillögur til lagabreytinga.
- Kosning stjórnar samkvæmt 6.gr.
- Kosning endurskoðanda samkvæmt 6.gr.
- Kosning nefnda
- Ákvörðun félagsgjalda
- Kosning fulltrúa á þing BSRB
- Önnur mál
12.gr. Stjórn félagsins skal boða til félagsfunda svo oft sem þurfa þykir. Félagsstjórn er skylt að boða til félagsfundar ef þess er krafist skriflega af 45 fullgildum félagsmönnum og ber þeim þá að tilgreina fundarefni.
Félagsfundi skal boða með minnst tveggja sólarhringa fyrirvara með skriflegu fundarboði til félagsmanna og auglýsingu á vinnustað. Fundarefni skal tilgreint í fundarboði.
13.gr. Fundum skal stjórna eftir fundarsköpum sem félagið setur. Ef ágreiningur verður um fundarsköp úrskurðar fundarstjóri en hann getur einnig skotið ágreiningsefni undir atkvæði fundarmanna.
Einfaldur meirihluti nægir til afgreiðslu mála á félagsfundum nema þar sem öðruvísi kann að verða ákveðið í lögum þessum.
Náist ekki tilskilinn meirihluti atkvæða við kosningu skal kosið að nýju milli þeirra sem ekki náðu kosningu. Verði kosningu þá ekki heldur lokið skal kjósa á milli þeirra sem flest atkvæði fengu en ekki náði kosningu þannig að tveir séu í kjöri um hvert sæti. Ef tveir eða fleiri fá jafnmörg atkvæði ræður hlutkesti úrslitum.
14.gr. Árgjald félagsmanna skal ákveðið á aðalfundi og skal miðast við hundraðshluta fastra launa. Í félagsgjaldi er innifalið árgjald til BSRB samkvæmt ákvörðun bandalagsins.
15.gr. Skylt er stjórn félagsins að láta löggiltan endurskoðanda endurskoða reikninga og fjárreiður félagsins í lok hvers reikningsárs.
Reikningsár félagsins er almanaksárið.
16.gr. Á hverjum vinnustað þar sem starfa fimm eða fleiri félagsmenn skal í september ár hvert fara fram val á trúnaðarmanni. Velja má annan trúnaðarmann til vara. Val trúnaðarmanns skal tilkynnt vinnuveitanda og stjórn félagsins þegar í stað. Berist eigi tilkynning fyrir 10. október skal félagsstjórn skipa trúnaðarmann án tilnefningar og tilkynna það félagsmönnum á vinnustað og vinnuveitenda.
Séu starfsmenn sveitarfélags fleiri en fimm skal þeim heimilt að kjósa einn trúnaðarmann á sama hátt og fyrr greinir.
Um starf trúnaðarmanna fer samkvæmt V.kafla laga nr. 94/1984 um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Félagsstjórn getur jafnframt sett trúnaðarmönnum starfsreglur.
Trúnaðarmenn ásamt félagstjórn mynda trúnaðarráð félagsins. Hlutverk trúnaðarráðs er að afgreiða á fundum sínum smærri mál, ræða og undirbúa stærri mál fyrir félagsfundi og vera félagsstjórn til aðstoðar í starfi hennar á hverjum tíma og jafnframt við samningagerð.
Nánari starfsreglur trúnaðarráðs má ákveða á félagsfundi.
17.gr.Kjarasamningar skulu bornir undir atkvæði á almennum félagsfundi og skal þess sérstaklega getið í fundarboði.
18.gr.Félaginu verður ekki slitið nema ¾ hluta allra félagsmanna samþykki það að viðhafðri allsherjaratkvæðagreiðslu. Verði samþykkt að leggja félagið niður skal BSRB varðveita eignir þess þar til annað verkalýðsfélag er stofnað með sama tilgangi á félagssvæðinu. Fær það félag þá umráð eignanna að áskildu samþykki miðstjórnar BSRB.
19.gr. Komi fram tillaga um að lögbinda/sameina félagið við annað félag eða slíta slíku sambandi þarf um hana samþykki sama atkvæðamagns og um lagabreytingu.
20.gr. Lögum þessum má aðeins breyta á aðalfundi enda hafi tillögur þar að lútandi borist til félagsstjórnar áður en til aðalfundar var boðað og þeirra getið í fundarboði.
Á aðalfundi er heimilt að gera breytingartillögur við löglega fram komnar tillögur til lagabreytinga enda feli breytingartillögurnar ekki í sér óskyld efni við upprunalegu tillögurnar.
Til að lagabreyting nái fram að ganga verður hún að vera samþykkt með 2/3 greiddra atkvæða. Um leið og samþykkt er breyting á lögunum skal ákveðið með fundarsamþykkt hvenær breytingin tekur gildi.
Laganefnd skal á hverju ári endurskoða lög félagsins og hafa lokið þeirri vinnu fyrir 15. desember.
21.gr. Stjórn félagsins skal halda félagaskrá er liggi fyrir á fundum félagsins. Persónuskilríki skulu félagar sýna við inngöngu á félagsfundi, ef stjórn óskar eftir því.
